Orkuveitan hagnaðist um 4,9 milljarða – Carbfix heldur áfram sókn

Orkuveita Reykjavíkur skilaði 4,9 milljarða króna hagnaði á fyrri helmingi ársins 2025, samanborið við 4,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Eigið fé nam 255 milljörðum króna í lok júní og eiginfjárhlutfall stóð í 50,2%.
Samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi námu rekstrartekjur samstæðunnar 34,4 milljörðum króna, samanborið við 33,4 milljarða á fyrri hluta árs 2024. Rekstrarhagnaður (EBIT) hækkaði í 11,7 milljarða króna og EBITDA í 20,2 milljarða.
Þrátt fyrir jákvæðan rekstur varð heildarafkoma neikvæð um tæpa 4 milljarða, einkum vegna gengismunar og gangvirðisbreytinga.
Carbfix í lykilhlutverki
Í skýringum kemur fram að dótturfélögin Carbfix ohf. og Carbfix hf. haldi áfram þróun og útbreiðslu kolefnisbindingaraðferðarinnar sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Tekjur Carbfix felast m.a. í ráðgjöf, uppbyggingu og rekstri förgunarstöðva fyrir koldíoxíð. Verkefnið er skilgreint sem nýsköpun sem tengist kjarnastarfsemi Orkuveitunnar og er ætlað að styrkja stöðu samstæðunnar í loftslagsmálum.
Fjárhagsstaða og skuldir
Heildareignir námu 508,4 milljörðum króna í lok júní, þar af varanlegir rekstrarfjármunir fyrir 439 milljarða. Skuldir námu 253 milljörðum króna, þar af vaxtaberandi skuldir tæplega 208 milljarðar.
Stjórn Orkuveitunnar samþykkti jafnframt arðgreiðslu að fjárhæð 6,5 milljarðar króna, þar af voru 3,25 milljarðar greiddir í júní og jafnhá upphæð verður greidd í ágúst.
👉 Sjá nánar um félagið á Keldunni.