Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hagnaðist um 379 milljónir – áfram fyrirmyndarfyrirtæki

Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. skilaði 379 milljóna króna hagnaði á árinu 2024, samanborið við rúman milljarð króna árið áður. Tekjur lækkuðu um 30% milli ára en félagið á óafhentar íbúðir fyrir rúma 2 milljarða króna sem munu færast til tekna á þessu ári.
Rekstrartekjur námu 7,6 milljörðum króna á árinu 2024, niður úr 10,8 milljörðum árið 2023. Helsta skýringin er færri afhentar íbúðir, en í árslok voru seldar en óafhentar íbúðir að andvirði 2,1 milljarðar króna sem munu hafa jákvæð áhrif á tekjur ársins 2025.
Eignir samstæðunnar námu 28,5 milljörðum króna í árslok (2023: 23,4 ma.kr.), þar af verkbirgðir fyrir 17,3 milljarða. Skuldir stóðu í 16,1 milljörðum króna en eigið fé í 12,0 milljörðum króna, sem jafngildir eiginfjárhlutfalli upp á 42,2%.
Sterk verkefnastaða
Á árinu seldi félagið fasteignir í Reykjanesbæ, Kópavogi og Hafnarfirði og hélt áfram framkvæmdum m.a. við Bolholt og Fossvog í Reykjavík, Hjallabraut og Ásvelli í Hafnarfirði og Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ. Verkefnastaðan er sögð sterk og hefur verkbirgðum fjölgað talsvert.
Meðalfjöldi starfsmanna var 165 á árinu (2023: 162). Félagið er í beinni eigu stofnendanna, Gylfa Ómars Héðinssonar múrarameistara og Gunnars Þorlákssonar húsasmíðameistara.
Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri
Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hefur verið á lista Keldunnar og Viðskiptablaðsins yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri frá árinu 2018, og miðað við niðurstöður ársins 2024 verður það áfram á listanum í ár.
👉 Sjá nánar um félagið á Keldunni.